Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn

Sem sjálfstæðismaður og áhugamaður um þýsk stjórnmál hélt ég til Berlínar fyrr í sumar til að kynna mér kosningabaráttu systurflokks Sjálfstæðisflokksins, Kristilegra demókrata (CDU), og hvernig starfsemi flokksins væri uppbyggð.

Í höfuðstöðvum CDU átti ég áhugaverð samtöl við starfsfólk flokksins, en megininntakið í máli þeirra var þetta: „Við erum flokkur allra stétta, við erum flokkur verkamannsins í bifreiðaverksmiðjunni í Stuttgart og kaupsýslumannsins í Hamborg, vínbóndans í Rínardalnum og kennarans í Berlín.“ Flokkurinn hefur á að skipa öflugum launþegasamtökum, CDA, og þá er innan vébanda hans starfandi hreyfing lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en bæði þessi aðildarsamtök hafa mikil áhrif á mótun stefnu flokksins og framkvæmd mála.

Þjóðverjar lærðu dýrmæta lexíu af tveimur heimsstyrjöldum og tveimur djúpum kreppum sem þurrkuðu út millistétt landsins með þeim afleiðingum að auður færðist á of fáar hendur. Við uppbyggingu hins nýja sambandslýðveldis á ofanverðum fimmta áratugnum og þeim sjötta var lögð megináhersla á frjálsan markaðsbúskap. Með afnámi hafta, hófsemi í skattheimtu og traustum gjaldmiðli jókst eiginfjármyndun almennings og fyrirtækja til muna. Þýska efnahagsundrið var ekki hvað síst drifið áfram af vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Á sama tíma var ráðamönnum ljóst að draga yrði úr vægi gríðarstórra fyrirtækjasamsteypa, og sumar þeirra voru brotnar upp.

Forystumenn CDU með Angelu Merkel í broddi fylkingar eru sífellt minnugir þessara grundvallaratriða og kristilegu flokkarnir mælast nú með um og yfir 40% fylgi á landsvísu (sjá nýjustu könnun Gesellschaft für Markt- und Sozialforschung), en kosningar til sambandsþingsins fara fram 24. september næstkomandi.

Mér fannst sem ég hefði fundið gamla Sjálfstæðisflokkinn á þessum sumardögum í Berlín. Undirliggjandi voru slagorðin „stétt með stétt“ og „eign fyrir alla“. Útskýringar starfsmanna CDU á stefnu flokksins hefðu allt eins getað verið þýskar þýðingar á ræðum Jóhanns Hafstein eða Bjarna Benediktssonar eldri.

Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að öðlast aftur fyrri stöðu sem 40% flokkur er nauðsynlegt að líta til þeirra grundvallaratriða sem hér eru nefnd. Flokkurinn hefur fyrir löngu glatað öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna og fátt verið gert til að bæta rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Eiginfjármyndun almennings og fyrirtækja eru settar alltof þröngar skorður með óhóflegri skattheimtu og íþyngjandi regluverki. Þá hefur á mörgum sviðum atvinnulífsins orðið óeðlilega mikil samþjöppun og litlir atvinnurekendur átt í vök að verjast.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að leita upprunans og stuðla að samfélagi valddreifingar. Í því efni má læra margt af Kristilegum demókrötum í Þýskalandi, systurflokki Sjálfstæðisflokks.

Morgunblaðið, 11. september 2017

Versti umhverfissóði landsins

Ekki skorti á skrúðmælgi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra þegar stjórnendur á annað hundrað fyrirtækja voru fengnir til að undirrita „umhverfisyfirlýsingu“ í Höfða með tilheyrandi fjölmiðlauppistandi nokkru áður en alls tólf fulltrúar borgarinnar héldu til Parísar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar voru heimsbyggðinni meðal annars kynnt áform Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Gott og vel. Í ljósi loforðaflaumsins um aðgerðir í umverfismálum er ekki ósanngjarnt að gefa því gaum hvernig þeim málaflokki er sinnt í höfuðborginni. Skemmst er að minnast þess að óhreinsuðu skólpi frá dælustöð borgarinnar við Faxaskjól hafði verið dælt í hafið í tíu sólarhringa áður en borgarbúum var gert viðvart. Alls er um að ræða 750 lítra á sekúndu. Almenningi varð ekki kunnugt um þetta mengunarslys fyrr en fréttamenn komust á snoðir um það. Borgaryfirvöld skeyttu engu um öryggi þeirra fjölmörgu borgarbúa sem leika sér í fjörum og synda í sjónum. Þeim bar að lögum skylda til að upplýsa um mengunarslysið en kusu að gera það ekki.

Enn alvarlegri hætta stafar þó af fráveitumálum Reykjavíkur því margfalt meira magn plastagna fer út í sjó úr skólphreinsistöðvum borgarinnar heldur en frá slíkum stöðvum í öðrum borgum Norðurlanda. Nýleg norræn rannsókn sýndi að 6,3 milljónir plastagna berast úr skólphreinsistöðinni við Klettagarða á hverri klukkustund. Plastagnir eru alvarleg ógn við lífríki heimshafanna og Reykjavík ætti sem höfuðborg sjávarútvegsþjóðar að vera í fararbroddi við verndun lífríkis hafsins. Lítið hefur þó farið fyrir umbótum í þessu efni.

Ekki hefur skort á heitstrengingar vinstrimeirihlutans í borginni þegar kemur að loftslagsmálum. Nýlegar mælingar Ólafs Kr. Guðmundssonar umferðarsérfræðings sýna aftur á móti að Reykjavíkurborg sjálf er mesti mengunarvaldur hvað umferð varðar með miklum töfum. Samkvæmt rannsóknum Ólafs eykst eyðsla bílvéla um ríflega 131% í umferðarteppum í borginni samanborið við svæði þar sem akstur en hindrunarlaus. Á sama tíma hyggjast borgaryfirvöld víðs vegar hægja á umferð, en þar með mun útblástur aukast enn frekar. Þau vinna því beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum.

Þá berast ítrekað fréttir af miklu magni svifryks í andrúmslofti í borginni sem reglulega mælist langt yfir heilsuverndarmörkum. Þýskir sérfræðingar bentu á það í fyrra að malbik er jafnan ekki nógu heitt þegar það er lagt á götur borgarinnar og í ofanálag er notað íslenskt grjót í malbik, þegar harðari bergtegundir, eins og kvarts, ættu miklu betur við. Þá er slitlag hér mun þynnra en alþjóðlegir staðlar mæla fyrir um. Þetta lélega malbik er laust í sér, verður hæglega fyrir frostskemmdum, brotnar upp og rykið fýkur út í andrúmsloftið. Dr. Larry G. Anderson, bandarískur sérfræðingur um þessi mál, benti á það á dögunum að svifryksmengun í Reykjavík mælist meiri en í stórum iðnaðarborgum vestanhafs. Sú einfalda aðgerð að þrífa götur reglulega kynni að draga verulega úr svifryksmengun, en borgaryfirvöld hafa ekki einu sinni ljáð máls á auknum þrifum og skellt skolleyrum við öðrum þeim ábendingum sem hér eru nefndar.

Önnur loftmengun snýr einnig að borgaryfirvöldum og það er losun brennisteinsvetnis frá virkjunum á Hellisheiði. Langtímaáhrif þess í lágum styrk á heilsu fólks eru ekki vel rannsökuð, en styrkur þess í andrúmslofti nærri borgarmörkunum hefur jafnvel mælst nærri heilsverndarviðmiði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Vísindamenn á borð við Sigurð Þór Sigurðsson, lungnalækni og sérfræðing í atvinnu- og umhverfissjúkdómum, hafa bent á að þetta aukna magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti kunni að hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir heilsu fólks til langs tíma litið. Lítið ber þó á aðgerðum borgaryfirvalda í þessu efni.

Almenn umhirða borgarlandsins er svo kapítuli út af fyrir sig. Sláttur á opnum svæðum borgarinnar og við umferðargötur hefur til að mynda verið langt frá því viðunandi síðan vinstrimenn tóku við völdum árið 2010. Rusl blasir við hvert sem litið er. Borgararnir keppast við að hirða lóðir sínar en þegar komið er út fyrir þær blasir við óræktin á borgarlandinu, hvort sem það eru óslegin tún eða úr sér vaxið illgresi sem kæfir jafnvel runna.

Og sorphirðugjöld hækka ár frá ári á meðan þjónustu Reykjavíkurborgar hrakar stöðugt. Sú var tíð að sorpílát voru tæmd vikulega. Nú líður hálfur mánuður milli losunar og ekki nema vonlegt að víða blasi við yfirfullar tunnur við heimili borgarbúa. Lífsskilyrði holræsarottunnar í Reykjavík hafa á sama tíma batnað verulega. Annað meindýr, minkurinn, virðist einnig fjölga sér hratt innan borgarmarkanna.

Ekki er einasta holur hljómur í skrúðmælgi Dags B. Eggertssonar og vinstrimeirihlutans í umhverfismálum heldur er um slík öfugmæli að ræða að leitun er að öðru eins. Ekki þarf frekari vitna við. Reykjavíkurborg ber með réttu nafnbótina versti umhverfissóði landsins.

Pressan, 10. júlí 2017

Burt með stöðumælana!

Fyrir meira en hálfri öld var tekið upp á því að innheimta gjald fyrir bílastæði við helstu verslunargötur í miðbæ Reykjavíkur til að tryggja sem best flæði í stæðin, enda óx bílaeign hröðum skrefum á þeim tíma og tilfinnanlegur skortur var orðinn á stæðum. Markmiðið með gjaldheimtu fyrir bílastæði hefur aldrei verið annað en að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu á stæðunum.

Borgaryfirvöld hafa hins vegar notað sér bílastæðin sem féþúfu og hækkað gjöldin óhæfilega. Gjaldtakan er hemill á að fólk komi í bæinn og þá mismunar borgin kaupmönnum, því ekki er innheimt gjald á verslunarsvæðum annars staðar í borgarlandinu.

En það eru til betri leiðir til að tryggja sem best flæði í bílastæði. Víða á meginlandi Evrópu, sem og á Akureyri, er notast við framrúðuskífur eða svokallaðar „bílaklukkur“ með góðum árangri. Ef slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp í miðbæ Reykjavíkur gætum við til að mynda hugsað okkur að við Laugaveginn sjálfan mætti leggja í tuttugu mínútur til hálfa klukkustund. Í hliðargötum og öðrum nálægum götum í tvær klukkustundir og fjærst, á Skúlagötusvæðinu, væru langtímastæði sem sér í lagi myndu gagnast starfsfólki verslana og annarra fyrirtækja sem þyrftu að leggja bílum sínum allan daginn.

Framrúðuskífurnar hafa gefist afar vel á Akureyri og leitt til mun betri nýtingar á stæðum og þá hafa heildartekjur bílastæðasjóðsins þar nyrðra aukist eftir breytinguna. Almenn ánægja ríkir meðal kaupmanna sem og bæjarbúa með framrúðuskífurnar.

Það er afar mikils virði fyrir borgina að verslun og þjónusta fái áfram dafnað í miðbænum. Stuðlum að því að borgarbúar sæki í ríkara mæli í bæinn og fjarlægjum stöðumælana.

Visir.is, 14. nóvember 2013